Grátlega nálægt sigri gegn meisturunum

Kvennalið Selfoss var grátlega nálægt því að leggja Íslandsmeistara Fram að velli í Olísdeildinni í handknattleik í dag. Lokatölur á Selfossi voru 21-22, gestunum í vil.

Selfoss var skrefi á undan stærstan hluta leiksins, spilaði á köflum frábæra vörn og markvarslan var góð auk þess sem Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði grimmt í sókninni og Hulda Dís systir hennar stýrði sóknarleik liðsins af öryggi.

Staðan var 10-9 í hálfleik og Selfyssingar í góðri stöðu þangað til rétt undir lokin en Fram skoraði síðustu tvö mörk leiksins og tryggði sér sigurinn en vafasamar ákvarðanir dómaranna undir lokin féllu Frömurum í vil.

Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Tinna Soffía Traustadóttir skoraði 5, Þuríður Guðjónsdóttir 3, Hildur Oder Einarsdóttir og Kara Rún Árnadóttir 2 og þær Sigrún Arna Brynjarsdóttir og Thelma Sif Kristjánsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Eftir leikinn er Selfoss í 9. sæti Olísdeildarinnar með 4 stig en Fram í 4. sæti með 12 stig.

Fyrri greinHekla Þöll Íslandsmeistari í formum
Næsta greinHveragufa villti um fyrir rjúpnaskyttu