Govens aftur í Þór

Vincent Sanford hefur yfirgefið herbúðir karlaliðs Þórs í körfubolta en Þórsarar hafa fengið Darren Govens aftur til liðs við sig fyrir lokasprettinn í Domino's-deildinni.

Govens lék síðast með Þór þegar liðið hafnaði í öðru sæti Íslandsmótsins eftir úrslitaseríuna gegn Grindavík tímabilið 2011-2012.

„Hann ætti að vera klár í næsta leik á föstudag,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs í samtali við Karfan.is. Síðan Govens lék síðast með Þór hefur hann haft viðkomu í Ísrael, Grikklandi og Ungverjalandi.

„Við ákváðum að taka Govens þar sem við vissum nákvæmlega hvað við værum að fá. Ef við hefðum verið að leita eftir nýjum manni þá hefðum við mögulega tekið öðruvísi prófíl. Govens er ekki að fara að koma okkur af botninum í fráköstum í þessari deild en hann gerir margt annað sem á eftir að styrkja okkur,“ sagði Benedikt sem að öllum líkindum verður með Govens innanborðs þegar liðið mætir Keflavík á útivelli næstkomandi föstudag.

Fyrri greinGamanleikur fyrir þá sem hafa gaman af gleði og glaum
Næsta greinSunnlenska.is bikarinn hefst í kvöld