Götuhjólreiðamenn skunda á Þingvöll

Á Þingvöllum. Mynd úr safni.

Á morgun, laugardaginn 19. júní, mun hjólreiðafélagið Tindur halda Íslandsmeistaramót í götuhjólreiðum. Í tilefni af 10 ára afmæli Tinds setti félagið stefnuna á Þingvelli þar sem hefð hefur verið fyrir því að halda götuhjólamót í gegnum árin.

Íslandsmeistaramótið er hápunktur keppnistímabilsins í götuhjólreiðum og hafa mót seinustu ára verið spennandi. Búast má við mikilli baráttu um titilinn í ár enda hafa fyrri mót sumarsins verið hin besta skemmtun. Mótið í ár verður sérlega áhorfendavænt þar sem farnir verða hringir innan þjóðgarðsins og því verður auðveldara fyrir áhorfendur að fylgjast með framgöngu keppninnar.

Keppt verður um Íslandsmeistaratitilinn í mörgum flokkum og vegalengdirnar mismunandi allt frá 34 km upp í 135 km. Þeir sem lengst fara munu fara frá Þingvöllum um veg 36 niður á Biskupstungnabraut og til baka að Þingvöllum upp Grafninginn. Þegar á Þingvelli er komið er hjólaður réttsælis hringur sem vegir 36 og 361 mynda. Styttri vegalengdir hjóla hringi innan þjóðgarðsins sem vegir 36 og 361 mynda.

Sett verður upp stýring á þremur gatnamótum meðan á keppni stendur með það fyrir augum að tryggja öryggi þátttakenda. Keppnin verður ræst klukkan 9 í fyrramálið og búast má við að henni verði lokið um 14.

Búast má við umferðartöfum í Grímsnesi og Grafningi fyrir hádegi og á Þingvallavæðinu frá 9 til 14. Vegfarendum er þökkuð tillitsemin og skilningur á fyrirhuguðum lokunum. Skipulag mótsins var unnið í samráði við Þjóðgarðinn, Vegagerðina og lögreglu með það fyrir augum að tryggja öryggi þátttakenda og halda röskun á samgöngum í lágmarki.

Fyrri greinYfir 100 keppendur á enduromóti á Jaðri
Næsta greinStyðjum Hafdísi Hrönn í þriðja sæti