„Gott að fá sigur í dag“

Selfoss vann sinn fyrsta heimasigur í 1. deild karla í knattspyrnu í dag þegar Tindastóll kom í heimsókn. Joseph Yoffe skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.

„Það var gott að fá sigur í dag, ég held að við höfum spilað þetta nokkurnveginn eins og lagt var upp með þannig að ég er mjög ánægður með þetta,“ sagði maður leiksins, Joseph Yoffe, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við skoruðum reyndar ekki úr opnum leik, en það skiptir svosem ekki öllu máli þar sem við unnum leikinn og sköpuðum okkur talsvert af færum, sem er jákvætt,“ sagði Yoffe ennfremur.

Yoffe fór meiddur af velli undir lok leiks og leit hreint ekki vel út en eftir skoðun hjá Trausta sjúkraþjálfara inni í klefa var hann útskrifaður. „Ég hafði áhyggjur af þessu, ég viðurkenni það, en ég er góður núna og verð örugglega klár í næsta leik,“ sagði Yoffe sem hefur skorað grimmt í síðustu leikjum. „Mér líður vel á Selfossi og liðið og félagið stendur að baki mér. Ég er búinn að spila mikið og þá kemst ég á skrið í markaskoruninni,“ sagði Englendingurinn geðþekki að lokum.

Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði var með liðunum á þungum og blautum vellinum. Fátt var um færi en undir lok fyrri hálfleiks fóru sóknir Selfyssinga að þyngjast. Hinn hávaxni Javier Z. Lacalle skapaði oft usla inni í vítateig Tindastóls og hann og Yoffe voru oft að lesa hvorn annan ágætlega í framlínunni. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson var líka mjög sprækur á hægri kantinum þó að oft vantaði upp á að lokasendingin frá honum lukkaðist.

Færin létu á sér standa og liðin áttu ekki skot á rammann fyrr en á 41. mínútu. Lacalle stökk þá upp í skallabolta með markverði Tindastóls sem hitti ekki boltann og kýldi Spánverjann í andlitið. Að sjálfsögðu var um óviljaverk að ræða en lítið annað fyrir dómarann að gera en að dæma vítaspyrnu. Yoffe fór á punktinn og skoraði af öryggi – sitt áttunda mark í síðustu sex leikjum fyrir Selfoss.

Staðan var 1-0 í hálfleik og Selfyssingar voru miklu sterkari í síðari hálfleik. Færin voru þó ekki mörg framan af en á 67. mínútu sáu áhorfendur slána setja boltann í slána því Lacalle skaut í tréverkið af stuttu færi úr galopnu færi, eftir frábæran undirbúning Yoffe.

Stólarnir fengu lítið annað en hálffæri fyrr en í uppbótartíma að þeir áttu hörkuskot framhjá eftir klafs í vítateig Selfoss. Skömmu áður hafði Andy Pew skallað boltann framhjá marki Tindastóls í frábærri stöðu eftir sendingu frá Ingólfi Þórarinssyni. Áhorfendur á bandi Selfoss heimtuðu mark númer tvö til að róa taugarnar en þó að það kæmi ekki sigldu Selfyssingar sigrinum nokkuð örugglega heim.

Selfoss lyfti sér upp í sjöunda sætið með sigrinum en liðið hefur nú sex stig og mætir næst Völsungi á útivelli 15. júní.

Fyrri greinDúmbó og Steini í Hvolnum í kvöld
Næsta greinTap í þokunni í Eyjum