GOS orðið fyrirmyndarfélag

Golfklúbbur Selfoss fékk í dag afhenta viðurkenningu frá Íþróttasambandi Íslands sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ.

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snýr að barna- og unglingastarfi. Það var Sigríður Jónsdóttir, formaður þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, sem afhenti Hlyni Geir Hjartarsyni, framkvæmdastjóra klúbbsins, viðurkenninguna.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, sté því næst í pontu og staðfesti styrk sem sveitarfélagið veitir öllum félögum í Árborg sem fá þennan gæðastimpil. Sveitarfélagið styrkir þau félög um hálfa milljón króna á ári á meðan félögin halda viðurkenningunni en endurnýja þarf hana á fjögurra ára fresti.

Barna- og unglingastarf Golfklúbbs Selfoss hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin misseri og fjölgar iðkendum sífellt. Hlynur Geir sagði í samtali við sunnlenska.is að þetta væri stór dagur fyrir golfklúbbinn sem er fyrsti golfklúbburinn á Suðurlandi til að vinna sér inn þessa viðurkenningu. „Undirbúningurinn að þessu hefur staðið meira eða minna í rúmt ár og þetta er stór áfangi fyrir okkur og undirstrikar það góða starf sem er unnið hérna í klúbbnum,“ sagði Hlynur.

Golfklúbburinn er níunda fyrirmyndarfélagið eða -deildin innan HSK en áður hafa allar deildir Ungmennafélags Selfoss fengið þessa viðurkenningu sem og Hestamannafélagið Sleipnir.

Fyrri greinKaffiboð í anda Guðrúnar frá Lundi
Næsta greinÆgir vann á Egilsstöðum – jafnt hjá Hamri og Sindra