Selfoss vann mikilvægan sigur á Kormáki/Hvöt í rokinu á Blönduósi í dag. Gonzalo Zamorano skoraði tvívegis í seinni hálfleiknum og tryggði 0-2 sigur.
Selfoss lék á móti vindi í fyrri hálfleik en hann einkenndist af miklum barningi og lítið var um góð færi.
Staðan var 0-0 í hálfleik en eftir rúmar 15 mínútur í seinni hálfleik fékk Zamorano boltann eftir fast leikatriði og stýrði honum í netið. Á 77. mínútu fengu Selfyssingar svo vítaspyrnu eftir að brotið var á Aroni Fannari Birgissyni og Zamorano fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Enn einn sigur hjá Selfyssingum á erfiðum útivelli og þeir vínrauðu eru áfram á toppi deildarinnar, nú með 29 stig en Kormákur/Hvöt er í 9. sæti með 12 stig.