Göngum í skólann hefst 4. september

Verkefnið Göngum í skólann verður sett í þrettánda sinn miðvikudaginn 4. september og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október.

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt og fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls 73 skólar skráðu sig til leiks árið 2018.

HSK hvetur skóla á sambandssvæði HSK til þátttöku þar sem því verður við komið. Þá eru sveitarfélögin hvött til að huga að því að göngu- og hjólreiðastígar séu öruggir og greiðir með því að huga að hreinsun, viðhaldi og lýsingu. Jafnframt er nauðsynlegt að stuðla að því að nærumhverfi skólanna sé öruggt eftir því sem við á t.d. með því að takmarka bílaumferð við skóla, huga að merkingum við t.d. gangbrautir, tryggja öryggi vegfarenda við umferðarþungar götur og hafa gangbrautarverði.

Á heimasíðu Göngum í skólann eru allar nánari upplýsingar um verkefnið en þar má m.a. finna skemmtilegar útfærslur nokkurra skóla á Íslandi á verkefninu.

Fyrri greinTinna semur við Selfoss
Næsta greinDagstund með Mozart í Hlöðunni