Gömul met féllu á héraðsmótinu í frjálsum

Lið Ungmennafélags Selfossi sigraði á héraðsmótinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennafélag Selfoss sigraði í stigakeppni Héraðsmóts HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Selfossvelli í síðustu viku.

Selfyssingar sigruðu bæði í karla- og kvennakeppninni og hlutu 264,5 stig samanlagt. Lið Garps/Heklu varð í 2. sæti með 124,5 stig og Hrunamenn í 3. sæti með 37 stig.

Átta ný héraðsmet
Átta HSK met voru sett á mótinu. Eva María Baldursdóttir, Selfossi, bætti sig um 1 sm í hástökki, sigraði með stökk upp á 1,77 m og bætti eigið héraðsmet í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.

Benjamín Guðnason, Selfossi, bætti HSK metið í sleggjukasti 16-17 ára þegar hann kastaði 32,39 m. Hann bætti 26 ára gamalt met Teits Inga Valmundssonar um rúmlega 2,6 metra. Litlu yngra var héraðsmetið sem Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Heklu, bætti í 100 m hlaupi 16-17 ára pilta. Sindri Freyr sigraði á 11,22 sek og bætti 23 ára gamalt met Elíasar Ágústs Högnasonar um 0,18 sekúndur.

Þá bætti Ólafur Guðmundsson, Selfossi, tvö öldungamet í flokki 50-54 ára. Ólafur bætti eigið met í spjótkasti um rúma 2 metra, kastaði 39,62 m. Hann gerði sér svo lítið fyrir og bætti 30 ára gamalt öldungamet Ólafs Unnsteinssonar í kúluvarpi um 2 sm, kastaði 11,69 m. Ólafur var í góðum gír á mótinu en hann sló yngri keppendum ref fyrir rass og sigraði í þremur greinum, kúluvarpi, kringlukasti og sleggjukasti.

Goði Gnýr og Eva María stigahæst
Goði Gnýr Guðjónsson, Heklu og Eva María Baldursdóttir, Selfossi voru stigahæstu keppendur mótsins en Goði Gnýr vann flest gullverðlaun allra á mótinu og sigraði í fjórum greinum, 400 m hlaupi, 800 m hlaupi, 1500 m hlaupi og einnig í Jónshlaupinu, sem er 5000 m hlaup. Eva María sigraði í 100 m hlaupi, hástökki og kúluvarpi, auk þess sem hún vann silfur í kringlukasti, sleggjukasti og boðhlaupi.

Unglingarnir vöktu athygli
Annars vakti það talsverða athygli að unglingar, 14 ára og yngri unnu átta héraðsmeistaratitla. Hin 13 ára gamla Ísold Assa Guðmundsdóttir, Selfossi, sigraði í þrístökki og stangarstökki auk þess sem hún var í B-sveit Selfoss sem sigraði í 4×100 m boðhlaupi kvenna. Með henni í sveitinni voru Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir, Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir og Álfrún Diljá Kristínardóttir. Álfrún Diljá varð einnig héraðsmeistari í sleggjukasti og Dýrleif Nanna í 800 m hlaupi, en báðar eru þær 14 ára gamlar. Þá varð Þórhildur Arnarsdóttir, 14 ára úr Umf. Hrunamanna, tvöfaldur héraðsmeistari en hún sigraði í 200 m hlaupi og langstökki. Enn einn 14 ára unglingurinn, Veigar Þór Víðisson, Garpi, sigraði í 110 m grindahlaupi karla og vann silfur og brons í fjórum öðrum greinum.

Goði Gnýr og Eva María voru stigahæstu keppendur mótsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Verðlaunapallur í kúluvarpi. (F.v.) Einar Árni Ólafsson, Þjótanda, Ólafur Guðmundsson, Selfossi og Benjamín Guðnason, Selfossi. Ólafur og Benjamín bættu báðir gömul héraðsmet á mótinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinDrengur í sjálfheldu við Uxafótarlæk
Næsta grein„Gríðarlega mikilvægt að landa þessum sigri“