Golfklúbbur Kiðjabergs í efstu deild

Sveit Golfklúbbs Kiðjabergs tryggði sér sæti í efstu deild í Sveitakeppni GSÍ í fyrsta sinn í dag. Þá sigraði Golfklúbbur Hellu í 3. deild og Golfklúbbur Selfoss í 4. deild.

Sveit Golfklúbbs Kiðjabergs hafnaði í 2. sæti í sveitakeppni 2. deildar sem spiluð var á Kiðjabergsvelli um helgina. GKB lék til úrslita við GA um efsta sætið í deildinni og hafði GA betur, 4,5 – 0,5. Golfklúbbur Öndverðaness varð í 7. sæti í 2. deild og féll því í 3. deild ásamt Golfklúbbi Bakkakots.

Sveit GKB skipuðu Jóhann Friðbjörnsson, liðsstjóri, Hjalti Atlasson, Snorri Hjaltasson, Róbert Björnsson, Sturla Ómarsson, Halldór X Halldórsson, Guðjón B Gunnarsson, Sveinn Snorri Sverrisson og Haraldur Már Stefánsson.

Sveit Golfklúbbs Hellu fór taplaus í gegnum 3. deildina og sigraði þar Golfklúbb Sandgerðis í úrslitaleik, 2,5 – 0,5. Golfklúbbur Hveragerðis lék einnig í 3. deildinni en Hvergerðingar þurftu að gera sér neðsta sætið að góðu og falla niður í 4. deild ásamt Golfklúbbi Sauðárkróks. Deildin var spiluð á Tungudalsvelli á Ísafirði.

Sveit Hellu var skipuð Katrínu Aðalbjörnsdóttur, liðsstjóra, Andra Má Óskarssyni, Arngrími Benjamínssyni, Hirti Leví Péturssyni, Jóni Þorsteini Hjartarsyni, Óskari Pálssyni og Þóri Bragasyni.

Sveit Golfklúbbs Selfoss lék í 4. deild á Kálfatjarnarvelli á Vatnsleysuströnd. Sveitin fór taplaus í gegnum mótið og lagði Golfklúbb Grindavíkur 2-1 í spennandi úrslitaleik í dag en úrslit réðust ekki fyrr en á síðustu holu. Selfyssingar og Grindvíkingar munu því leika í 3. deildinni að ári. Golfklúbburinn Þverá og Golfklúbburinn Geysir héldu sætum sínum í 4. deild en Þverá varð í 5. sæti og Geysir í því 6.

Lið Golfklúbbs Selfoss skipuðu Gylfi Sigurjónsson, liðstjóri, Bergur Sverrisson, Jón Ingi Grímsson, Guðmundur Bergsson, Árni Evert Leóson og Jón Sveinberg Birgisson.

Þá varð Golfklúbburinn Tuddi í 3. sæti í 5. deild sem leikin var á Grænanesvelli hjá Golfklúbbi Norðfjarðar.