Góður sigur Selfoss á útivelli

Kenan Turudija skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar tylltu sér á toppinn í 2. deild karla í knattspyrnu, tímabundið í það minnsta, með góðum sigri á ÍR á útivelli í kvöld, 0-2.

Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir strax á 8. mínútu leiksins eftir mistök í vörn ÍR. Selfyssingar héldu áfram að sækja og á 32. mínútu tvöfaldaði Kenen Turudija forskot þeirra vínrauðu með góðu marki eftir frábæra fyrirgjöf frá Þór Llorens Þórðarsyni.

Staðan var 0-2 í hálfleik en ÍR-ingar voru sterkari í seinni hálfleik, en tókst ekki að skora þrátt fyrir ágæt færi.

Selfoss hefur 6 stig að loknum þremur umferðum og er í efsta sæti en Kári, Víðir, Fjarðabyggð, Vestri og Völsungur eiga leik til góða á Selfyssinga.

Fyrri greinNaum töp hjá Stokkseyri og Árborg
Næsta grein„Við verðum fúlir í smá stund“