Góður sigur í fyrsta heimaleik vetrarins

Ivana Raikovic og Inga Sól Björnsdóttir stóðu vaktina vel í hjarta Selfossvarnarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á Fjölni-Fylki í 1. deild kvenna í handbolta í Hleðsluhöllinni á Selfossi í dag. Þetta var fyrsti heimaleikur Selfoss í vetur og sá þriðji í deildarkeppninni.

Jafnt var á öllum tölum upp í 8-8 eftir fimmtán mínútna leik. Þá kom góður kafli hjá Selfyssingum sem breyttu stöðunni í 12-9 og staðan í leikhléi var 17-14.

Selfoss byrjaði vel í seinni hálfleik og náði fljótlega sjö marka forskoti, 22-15. Þær vínrauðu litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það, mnurinn varð mestur níu mörk en lokatölur urðu 30-23.

Tinna Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 12/7 mörk, Agnes Sigurðardóttir skoraði 5, Lara Zidek 5/1, Elínborg Þorbjörnsdóttir 4/1, Ivana Raikovic 2 og þær Sólveig Brynjarsdóttir og Kristín Hólmarsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Lena Ósk Jónsdóttir varði 7 skot í marki Selfoss, sem lyftir sér upp úr botnsætinu með þessum sigri.

Fyrri greinHamarsmenn áfram ósigraðir
Næsta greinÞórsarar töpuðu í framlengdum leik