Góður heimasigur Hrunamanna – Selfoss tapaði

Aleksi Liukko átti stórleik fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn unnu góðan sigur á Snæfelli í 1. deild karla í körfubolta í gær. Selfyssingar voru hins vegar í vandræðum gegn Fjölnismönnum.

Á Flúðum var jafnræði með liðunum í 1. leikhluta en Hrunamenn skoruðu fjögur síðustu stig leikhlutans og breyttu stöðunni í 25-21. Þeir leiddu síðan allan 2. leikhlutann og staðan í hálfleik var 46-36. Hrunamenn héldu aftur af öllum áhlaupum Snæfellinga í seinni hálfleik en spenna hljóp í leikinn á lokamínútunni þar sem gestirnir minnkuðu muninn í þrjú stig. Nær komust þeir ekki og Hrunamenn sigruðu 76-70. Aleksi Liukko var stighæstur Hrunamanna með 25 stig, 21 fráköst og 7 stoðsendingar. Chancellor Calhoun-Hunter skoraði 24 stig og Hringur Karlsson 10.

Selfyssingar áttu erfitt uppdráttar gegn Fjölni þegar liðin mættust í Gjánni á Selfossi. Fjölnismenn tóku leikinn strax í sínar hendur og í hálfleik var staðan 29-52. Selfyssingar minnkuðu muninn í 11 stig í 3. leikhluta en þá stigu Fjölnismenn á gjöfina aftur og unnu að lokum öruggan sigur, 61-96. Michael Asante var stigahæstur Selfyssinga með 15 stig og Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 14.

Með sigrinum fóru Hrunamenn upp að hlið Selfyssinga, bæði lið eru með 4 stig í 10.-11. sæti deildarinnar.

Fyrri greinFullt Ris á bókakynningu
Næsta greinSelfoss semur við Eystein Erni