Góður bragur á Þórsurum í seinni hálfleik

Vinnie Shahid var stigahæstur Þórsara í kvöld með 28 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann mikilvægan sigur á ÍR í úrvalsdeild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld, 91-87. Þórsarar eru í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en þristur frá afmælisdrengnum Emil Karel Einarssyni undir lok hans kom Þórsurum í 30-22. ÍR-ingar jöfnuðu strax í upphafi 2. leikhluta og höfðu frumkvæðið eftir það en gestirnir leiddu 43-47 í leikhléi.

Þórsarar léku við hvurn sinn fingur í upphafi seinni hálfleiks og komust yfir með tveimur fyrstu körfum 3. leikhluta. Þeir héldu forystunni það sem eftir lifði leiks, þó að ÍR-ingar hafi andað hressilega niður um hálsmálið á þeim allan tímann. ÍR náði að jafna, 79-79, þegar tæpar fimm mínútur voru eftir en Þórsarar sýndu viljastyrk á lokakaflanum og lönduðu góðum sigri.

Vinnie Shahid var stigahæstur Þórsara í kvöld með 28 stig og 9 stoðsendingar og Jordan Semple var feiknagóður með 20 stig og 13 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Þór er í 8. sæti með 16 stig, eins og Breiðablik og Grindavík sem eru í sætunum fyrir ofan. ÍR er í 11. sæti með 10 stig og berst fyrir lífi sínu í deildinni.

Þór Þ.-ÍR 91-87 (30-25, 13-22, 29-20, 19-20)
Tölfræði Þórs: Vincent Shahid 28/5 fráköst/9 stoðsendingar, Jordan Semple 20/13 fráköst/5 varin skot, Styrmir Snær Þrastarson 17, Fotios Lampropoulos 9/14 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Tómas Valur Þrastarson 8/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 6, Davíð Arnar Ágústsson 3, Pablo Hernandez 5 fráköst.

Fyrri greinSnæfríður fyrst undir tvær mínúturnar
Næsta greinFundað um fjórðu tunnuna