Keppendur frá taekwondodeild Ungmennafélags Selfoss náðu góðum árangri á Íslandsmótinu í formum sem haldið var í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ fyrir rúmri viku síðan.
Taekwondodeild Selfoss sendi fjóra keppendur til leiks og endaði Selfoss í 2. sæti í A-flokki.
Úlfur Darri Sigurðsson kom heim með þrenn gullverðlaun en hann varð Íslandsmeistari í einstaklings formum í cadet flokki og í freestyle í junior flokki. Þá tóku hann og Laufey Ragnarsdóttir gullið í paraformum í junior flokki.
Laufey varð einnig Íslandsmeistari í hópa formum í junior flokki þar sem hún keppti með iðkendum úr ÍR og Aftureldingu. Þá vann hún einnig silfurverðlaun í einstaklings formum í junior flokki.
Veigar Elí Ölversson vann silfurverðlaun í einstaklings formum í cadet flokki og Loftur Guðmundsson tók bronsið í einstaklings formum í junior flokki. Þeir Loftur, Veigar og Úlfur Darri urðu svo í 3. sæti í hópa formum í junior flokki.




