Góðir útisigrar hjá Hamri og Selfossi

Christian Cunningham var með tröllatvennu fyrir Selfyssinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss unnu sína leiki í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, báða á útivelli. Hamar mætti Álftanesi en Selfoss heimsótti Snæfell.

Hamar heimsótti Álftanes í Forsetahöllina og þar var leikurinn í járnum allt þar til í síðasta fjórðungnum. Staðan var 54-56 í leikhléi og það var ekki fyrr en um miðjan 4. leikhluta að Hamar náði 13-2 áhlaupi og hristi þar með Álftnesinga endanlega af sér. Lokatölur urðu 93-104.

Everage Richardson skoraði 27 stig fyrir Hamar og sendi 6 stoðsendingar. Styrmir Snær Þrastarson skoraði 20 stig og tók 8 fráköst, Geir Helgason skoraði 17 stig og Pálmi Geir Jónsson 16, auk þess sem hann tók 10 fráköst.

Í Stykkishólmi mættust Snæfell og Selfoss. Selfyssingar voru ekki alveg á tánum í vörninni í fyrri hálfleik og heimamen leiddu með einu stigi í leikhléi, 53-52. Það var allt annað að sjá til Selfossliðsins í seinni hálfleik, þeir skelltu í lás og juku forskot sitt jafnt og þétt og unnu að lokum öruggan sigur, 81-104.

Christian Cunningham var stigahæstur Selfyssinga með 29 stig og 16 fráköst, Kristijan Vladovic skoraði 23 stig, átti 9 stoðsendingar og stal 5 boltum og þeir Sveinn Hafsteinn Gunnarsson og Svavar Ingi Stefánsson skoruðu báðir 10 stig.

Hamar er í toppsæti deildarinnar, með 18 stig eins og Breiðablik og Höttur. Selfoss er í 5. sætinu með 8 stig.

Fyrri greinReykræstu hús í Hveragerði
Næsta greinYfir 300 börn í jólasýningu fimleikadeildar Selfoss