Góðir sigrar sunnlensku liðanna

Everage Richardson var frábær í liði Hamars með 32 stig og 10 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar og Selfoss unnu góða sigra á andstæðingum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hamar tók á móti Álftanesi og Selfoss tók á móti Snæfelli.

Hamar byrjaði betur í leiknum gegn Álftanesi og náði sjö stiga forskoti undir lok 1. leikhluta. Staðan í hálfleik var 45-40. Álftnesingar mættu sprækir inn í seinni hálfleikinn og náðu að komast yfir í 3. leikhluta og staðan var 61-69 þegar 4. leikhluti var nýhafinn. Þá tók við frábær kafli Hamars, en 14-2 áhlaup kom þeim aftur yfir. Síðustu fimm mínútur leiksins sýndu Hvergerðingar svo mikinn styrk og kláruðu leikinn vel, 96-83. 

Everage Richardson var frábær í liði Hamars með 32 stig og 10 fráköst. Michael Philips skoraði 21 stig og tók 10 fráköst og Styrmir Snær Þrastarson skoraði 11 stig.

Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum gegn Snæfelli allan tímann. Selfoss komst í 15-4 í upphafi leiks og leiddi 30-18 að loknum 1. leikhluta. Staðan í hálfleik var 49-31. Seinni hálfleikurinn var jafnari en liðin skiptust á að gera áhlaup. Selfoss hafði 30 stiga forskot þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum en Snæfell klóraði í bakkann á lokamínútunum og lokatölur urðu 96-77.

Arnór Bjarki Eyþórsson var stigahæstur Selfyssinga með 27 stig, Christian Cunningham skoraði 25 stig og tók 23 fráköst og Maciek Klimaszewski skoraði 18.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 30 stig, eins og Breiðablik sem er í toppsætinu og Höttur sem er í 3. sæti. Selfoss er í 6. sæti með 12 stig.

Fyrri greinÓvenju mjúkar og bragðgóðar kleinur
Næsta greinMikil hálka í kringum Flúðir