Góð viðbót við öflugan hóp

Hrannar Snær Magnússon. Mynd/Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við hinn 21 árs gamla Hrannar Snæ Magnússon. Hann kemur til Selfoss frá KF, hvar hann hefur leikið undanfarin þrjú sumur.

Hrannar er við nám í Cumberland háskólanum í Kentucky í Bandaríkjunum en hann mun útskrifast þaðan í vor. Hann hefur samhliða náminu spilað fótbolta með liði skólans í háskóladeildinni.

Hrannar er þeim eiginleikum gæddur að hann getur leyst margar stöður á vellinum og er jafnvígur á vinstri og hægri fót. „Það er mikil tilhlökkun að fá Hrannar til okkar í vor þegar hann hefur lokið sínu námi. Hann mun verða góð viðbót við okkar öfluga hóp,“ segir Dean Martin þjálfari Selfoss í tilkynningu frá félaginu.

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur og él
Næsta greinEndurfundir eftir 74 ára aðskilnað