Góð mæting á 100. héraðsþing HSK

Frá ársþingi HSK á Þingborg á síðasta ári. Guðríður Adnegaard formaður er í pontu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Um 120 manns mættu á héraðsþing HSK sem haldið var í Þingborg í Flóahreppi í gær. Þinghaldið gekk vel og móttökur heimafólks úr Umf. Þjótanda og Flóahreppi voru frábærar.

Í tilefni af 100. héraðsþinginu fengu allir fulltrúar möppur merktar sambandinu og Flóahreppur bauð fulltrúum og gestum í mat.

Stjórn HSK lagði fram ellefu tillögur og voru þær flestar samþykktar, en tillaga um breytingu á lögum HSK um að fækka þingfulltrúum var felld.

Ein breyting varð á stjórn sambandsins, en Baldur Gauti Tryggvason gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Lárus Ingi Friðfinnsson úr Hamri kjörinn í stað Baldurs. Stjórn HSK skipa Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Anný Ingimarsdóttir ritari, Helgi S. Haraldsson varaformaður og Jón Þröstur Jóhannesson meðstjórnandi. Varastjórn skipa þau Gestur Einarsson, Olga Bjarnadóttir og Lárus Ingi Friðfinnsson.

HSK veitti nokkur sérverðlaun á þinginu, líkt og undanfarin ár. Umf. Selfoss var stigahæsta félagið, körfuknattleiksdeild Umf. Þórs hlaut unglingabikar HSK, Umf. Hvöt fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Sigmundur Stefánsson á Selfossi valinn öðlingur ársins.

Viktor S. Pálsson formaður Umf. Selfoss, Guðrún Ása Kristleifsdóttir formaður Umf. Hvatar, Jóhanna Margrét Hjartardóttir formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, Sigmundur Stefánsson öðlingur ársins og Guðríður Adnegaard formaður HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinTómas Birgir leiðir Nýja óháða listann
Næsta greinMjólkurverð hækkar