Góður sigur hjá Ægi – Hamar steinlá

Ægir lagði KV og Hamar tapaði fyrir KH í leikjum kvöldsins í Lengjubikar karla í knattspyrnu.

Ægir og KV mættust í B-deildinni á gervigrasinu á KR-vellinum. Ingvi Rafn Óskarsson kom Ægi yfir strax á 1. mínútu leiksins en heimamenn jöfnuðu á 32. mínútu. Kristján Þorkelsson kom Ægi hins vegar yfir fimm mínútum síðar og staðan var 1-2 í hálfleik.

Kristján var aftur á ferðinni þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og staðan var 1-3 allt fram á 88. mínútu leiksins að KV minnkaði muninn.

Ægir er í 2. sæti riðilsins með 6 stig að loknum þremur leikjum.

Að Hlíðarenda mættust Hamar og KH í C-deildinni og þar fengu Hvergerðingar slæma útreið. Heimamenn leiddu 4-0 í leikhléi en Friðrik Örn Emilsson minnkaði muninn strax á 2. mínútu seinni hálfleiks. Logi Geir Þorláksson breytti stöðunni svo í 4-2 á 68. mínútu en KH skoraði tvö mörk á lokakaflanum og sigraði 6-2.

Hamar er í 4. sæti riðilsins með 3 stig að loknum tveimur leikjum.

Fyrri greinKynningarfundur vegna Saga Fest
Næsta greinÚrslitakeppnin hefst í kvöld