Góður sigur FSu

FSu fór uppfyrir Breiðablik á stigatöflu 1. deildar karla í körfubolta með því að leggja Blika að velli í Iðu í kvöld, 81-71.

Þetta var hörkuleikur þar sem liðin skiptust á um að hafa undirtökin. Blikar byrjuðu betur og komust í 6-17 en FSu kom til baka í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 29-29. Eins og sjá má á tölunum var varnarleikurinn í fyrirrúmi og leikmenn afrekuðu lítið í sókninni.

Blikar komust yfir í 3. leikhluta þar sem hart var barist en staðan að honum loknum var 50-54, gestunum í vil. FSu komst strax yfir í síðasta fjórðungnum en Blikar svöruðu að bragði og leiddu um miðjan leikhlutann. Leikmenn FSu voru hins vegar funheitir fyrir utan þriggja stiga línuna og skiptust þar á um að skora glæsikörfur.

Þegar rúm mínúta var eftir var staðan 77-71 eftir tvær góðar sóknir í röð á meðan Blikarnir misstu boltann. Á lokamínútunni hélt FSu algjörlega aftur af Breiðablik í sókninni og Selfyssingar luku leiknum með sóma á vítalínunni til þess að tryggja tíu stiga sigur.

Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 21 stig, Matt Brunell skoraði 16 og þeir Svavar Ingi Stefánsson og Daði Berg Grétarsson skoruðu báðir 14 stig en Daði tók 10 fráköst að auki.

Fyrri greinÓk á ljósastaur á Selfossi
Næsta greinÞórsarar völtuðu yfir Keflavík í seinni hálfleik