„Góð byrjun á sumrinu“

Kvennalið Selfoss byrjaði Íslandsmótið í knattspyrnu með 0-2 sigri gegn Þrótti R. á gervigrasinu í Laugardal í kvöld.

Selfyssingar voru sterkari framan af leiknum en gekk illa að skora. Á 32. mínútu braut Guðmunda Óladóttir ísinn með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að boltinn hafði farið í hönd varnarmanns innan vítateigs, eftir aukaspyrnu Tiana Brockway.

Selfosskonur fóru með 0-1 forystu inn í leikhléið en í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum, Selfoss sótti meira en Þróttarar áttu líka sín færi. Þannig björguðu Selfyssingar m.a. á línu og Þróttur fékk fleiri færi á að jafna.

Guðmunda gerði hins vegar út um leikinn á 78. mínútu eftir góða sókn og fyrirgjöf frá Önnu Maríu Friðgeirsdóttur frá vinstri til hægri þar sem Guðmunda kláraði sitt færi afar vel.

„Þetta var bara góð byrjun á sumrinu. Við stjórnuðum leiknum og vorum mikið með boltann, fengum mikið af færum og hálffærum en gekk frekar illa að koma boltanum í netið,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þetta var ekki öruggt hjá okkur fyrr en eftir seinna markið þá sýndum við mikla yfirburði í kjölfarið og kláruðum leikinn af öryggi,“ segir Gunnar sem er ánægður með góða byrjun Selfyssinga.

Næsti leikur Selfoss er gegn FH á útivelli þann 14. maí en FH gerði jafntefli við Íslandsmeistara Þór/KA í kvöld. Fyrsti heimaleikur Selfoss er svo 18. maí gegn Aftureldingu.

Fyrri greinForeldrafélagið óánægt með sumarlokunina
Næsta greinKristín útnefnd íþróttamaður Skaftárhrepps