Góður útisigur hjá Hamri

Hamar vann mikilvægan útisigur á Þór Akureyri í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi, 81-88. Hamar er í 3. sæti deildarinnar og á leik til góða á Haukamenn í 2. sæti.

Hamar byrjaði betur í leiknum í gærkvöldi og komst í 9-24 í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 15-26. Hvergerðingar skoruðu svo níu fyrstu stigin í 2. leikhluta og voru þá komnir með 20 stiga forskot sem þeir héldu lengst af í leikhlutanum en Þórsarar skoruðu fjögur síðustu stigin í fyrri hálfleik og staðan var 32-47 í leikhléinu.

Þórsarar voru sterkari í seinni hálfleik og nöguðu niður forskot Hamars smátt og smátt. Munurinn var kominn niður í níu stig að loknum 3. leikhluta, 54-63.

Lokaleikhlutinn var æsispennandi en Þórsarar byrjuðu betur og þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum voru heimamenn komnir yfir, 78-74. Hamar svaraði að bragði með þrettán stigum í röð þar sem Jerry Hollis var í aðalhlutverki á vítalínunni og tryggði hann Hamarsmönnum sigurinn.

Hollis var stigahæstur Hamarsmanna með 36 stig, Örn Sigurðarson og Halldór Gunnar Jónsson skoruðu 16 stig, Ragnar Nathanaelsson 8 og Lárus Jónsson 6.

Fyrri greinÖruggt hjá Selfyssingum gegn Þrótti
Næsta greinSmith funheitur gegn Stjörnunni