Góður útisigur Hamars – FSu tapaði

Hamar vann góðan sigur á Breiðablik á útivelli á meðan FSu tapaði að heiman gegn Fjölni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Hamarsmenn lögðu grunninn að sigrinum með góðum fyrri hálfleik en staðan var 34-46 í leikhléi. Blikar söxuðu á forskotið í 3. leikhluta en Hamar hélt haus í síðasta fjórðungnum og sigraði 82-91.

Christopher Woods var með tröllatvennu hjá Hamri skoraði 38 stig og tók 26 fráköst og 4 varin skot að auki. Erlendur Ágúst Stefánsson skoraði 15 stig, Snorri Þorvaldsson 12 og Örn Sigurðarson 11.

FSu gekk ekki eins vel þegar liðið sótti Fjölni heim. Fjölnir hafði yfirburði í 1. leikhluta og náði fjórtán stiga forskoti. Annar leikhluti var jafn en staðan í hálfleik var 54-41. Fjölnir kláraði leikinn svo í 3. leikhluta en góður kafli FSu í síðasta fjórðungnum kom of seint. Lokatölur 99-87.

Terrence Motley skoraði 43 stig fyrir FSu og tók 10 fráköst. Ari Gylfason skoraði 14 stig.

Hamar er nú í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en FSu í 6. sætinu með 10 stig.

Fyrri greinSet styður við knattspyrnu á Selfossi
Næsta greinNýtt ár, ný markmið…