Góður sigur í spennuleik

Þórsarar tóku á móti Snæfellingum í Domino's-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en að lokum voru það heimamenn í Þór sem fögnuðu sigri, 94-90.

Ljóst var að stuðningsmönnum Þórs var farið að lengja töluvert eftir því að komast á körfuboltaleik, pallarnir voru þétt setnir og ágætis stemmning í húsinu í þessum fyrsta leik eftir alltof langt jólafrí.

Leikurinn var sem fyrr segir jafn allan tímann og hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu. Það var leikinn ansi hraður körfubolti og oft og tíðum litu skemmtileg tilþrif dagsins ljós, þrátt fyrir að mistök beggja liða hafi verið þónokkur, eins og kannski eðililegt er í fyrsta leik eftir jól.

Munurinn varð mestur í öðrum leikhluta, þegar Snæfellingar áttu góðan kafla og náðu átta stiga forystu, 42-34. Þórsarar söxuðu þann mun þó niður í eitt stig fyrir hálfleik og Nemanja Sovic endaði hálfleikinn á frábærum flautuþrist í spjaldið og ofaní.

Fyrir fjórða leikhluta var enn allt í járnum og staðan 69-68 heimamönnum í vil. Þórsarar höfðu yfirhöndina í leikhlutanum og náðu með góðri vörn að koma í veg fyrir að Snæfell næði að jafna leikinn á lokametrunum. Þar lék Ragnar Nathanaelsson stórt hlutverk, hirti gott varnarfrákast og geystist svo upp völlinn, án bolta, og tróð boltanum af krafti í körfu Snæfellinga nokkrum sekúndum síðar. Það kom Þórsurum í 89-86 og 50 sekúndur eftir af leiknum.

Í næstu sókn tók Ragnar sig síðan til og varði skot frá Travis Cohn og hirti þarnæst af honum boltann. Síðan komust Þórsarar á vítalínuna og þar setti Baldur Þór Ragnarsson bæði skotin niður af fádæma öryggi og tryggði Þórsurum sigurinn.

Mike Cook Jr. var stigahæstur hjá Þór með 30 stig og 11 stoðsendingar, Nemanja Sovic skoraði 27 stig, Ragnar Nathanaelsson 13, Baldur Þór Ragnarsson 9, Emil Karel Einarsson 7, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 og Tómas Heiðar Tómasson 3.