Góður sigur Hamars

Hamar er kominn upp í 7. sæti 2. deildar karla í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á toppliði Hattar frá Egilsstöðum í Hveragerði í dag.

Hamarsmenn voru frískari í upphafi og fyrirliðinn Ágúst Örlaugur Magnússon kom þeim yfir á 11. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Sex mínútum síðar voru Hamarsmenn komnir í 2-0 eftir mark frá Alexandre Tselichtchev.

Hamar leiddi 2-0 í hálfleik en strax á 4. mínútu síðari hálfleiks minnkuðu Héraðsbúar muninn í 2-1 með marki úr vítaspyrnu. Það urðu úrslit leiksins en þó bæði lið hafi fengið ágæt færi tókst þeim ekki að bæta við mörkum.