Góður sigur Hamars að Hlíðarenda

Kvennalið Hamars vann góðan sigur á Val í Iceland Express-deildinni í körfubolta að Hlíðarenda í kvöld. Lokatölur voru 61-60.

Það blés þó ekki byrlega hjá Hamri í upphafi leiks því Valur komst í 12-2 en Hamar minnkaði muninn í sex stig í 1. leikhluta, 20-14. Hamarskonur söxuðu svo jafnt og þétt á forskot Vals í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 36-34.

Þriðji leikhluti var jafn en í stöðunni 42-42 tók Samantha Murphy til sinna ráða og skoraði þrettán stig í röð gegn fjórum stigum Vals og Hamar leiddi 46-55 að loknum 3. leikhluta. Hamar hélt forskotinu út 4. leikhluta, munurinn varð minnstur sex stig þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en Sóley Guðgeirsdóttir og Samantha Murphy settu niður víti á lokamínútunni og sigur Hamars var ekki í hættu.

Hannah Tuomi átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 26 stig og tók 17 fráköst auk þess sem hún fiskaði 12 villur á andstæðingana. Samantha Murphy skoraði 25 stig og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 6 stig og tók 15 fráköst.

Þetta var annar sigur Hamars í deildinni og með honum fór liðið upp í 4. sæti deildarinnar.

Þjálfari Vals er Ágúst Björgvinsson, fyrrum þjálfari Hamars, og með liði Vals leika þrír leikmenn sem voru í herbúðum Hamars í fyrra. Þær fundu sig ekki í leiknum en Guðbjörg Sverrisdóttir var þó stigahæst Valskvenna með 15 stig.