Góður leikur gegn sterku liði

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu lét KR-inga virkilega hafa fyrir hlutunum þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins á Selfossi í dag. KR sigraði 3-4.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og Selfossliðið var mikið með boltann en sóknarlotur KR voru markvissari og skoruðu gestirnir tvö mörk í fyrri hálfleik. KR komst yfir strax á 5. mínútu og skoruðu svo aftur á 38. mínútu. Selfoss fékk nokkur hálffæri en KR var sanngjarnt yfir í hálfleik, 0-2.

Selfosskonur mættu vel stemmdar í seinni hálfleikinn og Anna María Friðgeirsdóttir minnkaði muninn í 1-2, strax á fyrstu mínútunum. Guðmunda Óladóttir komst af harðfylgi inn í vítateig hægra megin og sendi á Önnu Maríu sem skoraði með góðu skoti.

Nokkrum mínútum síðar fengu Selfyssingar hornspyrnu og Anna Þorsteinsdóttir gerði sér lítið fyrir og smurði boltanum yfir markvörð KR og í netið beint úr hornspyrnunni.

Eftir jöfnunarmarkið sóttu KR konur í sig veðrið án þess að ógna marki Selfoss mikið. Bæði lið fengu færi og Selfoss átti að fá vítaspyrnu sem dómarinn hundsaði en áfram voru gestirnir klókari að klára sóknir sínar og bættu við tveimur mörkum. Fjórða mark KR kom þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en Anna Þorsteinsdóttir minnkaði muninn í 4-3, strax í næstu sókn Selfoss. Selfyssingar pressuðu svo á lokamínútunum en náðu ekki að skora jöfnunarmarkið.