Góður árangur á vormóti

Góður árangur náðist á Vormóti HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór við ágætis aðstæður á Selfossvelli í gær.

Styrmir Dan Steinunnarson, Þór, sigraði í hástökki karla með stökk upp á 1,85 m og hann fékk einnig gullverðlaun í 110 m grindahlaupi þar sem hann var eini keppandinn. Þrátt fyrir að hlaupa einn bætti hann sinn besta árangur í greininni og hljóp á 18,31 sek.

Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, sigraði í 400 m hlaupi karla á 52,05 sek og í sleggjukasti karla keppti Þorbergur Magnússon, Þór, einn og sigraði með kast upp á 27,06 m.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, sigraði í 100 m grindahlaupi kvenna á 15,36 sek og hún varð önnur í 400 m grindahlaupi á 63,53 sek.

Í kúluvarpi kvenna varð Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi, önnur með 11,0 m kast og Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi, varð þriðja, kastaði 10,82 m.

Solveig Þóra Þorsteinsdóttir, Þór, varð þriðja í hástökki kvenna, stökk 1,45 m og Guðjón Baldur Ómarsson, Selfossi, varð þriðji í langstökki karla, stökk 5,25 m.

Þá varð Sigþór Helgason, Selfossi, þriðji í spjótkasti karla, kastaði 58,93 m.

Fyrri greinGuðmundur á Lindarbrekku 100 ára
Næsta greinBúin að prjóna þúsund lopapeysur fyrir börn í Hvíta-Rússlandi