Góð stemmning í Sólheimahlaupi

Á dögunum stóðu Frískir Flóamenn og Sólheimabúar fyrir almenningshlaupi. Hlaupin var 9 km leið frá Borg í Grímsnesi að Sólheimum.

Einnig var gengið og hjólað en félagar úr hjólahópi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands leiddu hjólreiðarnar. Nokkrir garpar gengu eða hlupu báðar leiðir, þ.e. á Borg og til baka.

Eftir hlaupið var hressing í Grænu könnunni þar sem afhentur var framfarabikar sem Frískir Flóamenn gáfu Sólheimabúum í fyrra. Hann mun sá hljóta ár hvert sem sýnt hefur hvað mestar framfarir eða besta ástundun í íþróttum á árinu. Fimm voru tilnefndir, þau Ágúst Þór Guðnason, Guðrún Lára Aradóttir, Lárus Fjelsted, Ólafur Benediktsson og Reynir Pétur Steinunnarson. Það var Ágúst Þór Guðnason sem hreppti bikarinn að þessu sinni, en hann hefur sýnt afburðaárangur og unnið til margra verðlauna í frjálsum íþróttum á landsvísu.

Hlaupið var liður í alheimsátakinu Moving Planet, sem miðar að því að minnka kolefnislosun í heiminum www.moving-planet.org. Þennan dag voru allir hvattir til að leggja bílnum og hjóla, ganga eða hlaupa til að leggja málefninu lið.

agust_solheimahlaup2011_782725476.jpg
Ágúst Þór Guðnason tekur við framfarabikarnum úr hendi Sigmundar Stefánssonar.