Góð mæting á lokamót í frjálsum

Iðkendur yngri flokka Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss komu saman á frjálsíþróttavellinum þriðjudaginn 23. ágúst og spreyttu sig í nokkrum frjálsíþróttagreinum.

Góð mæting var á mótið sem var nokkurs konar endapunktur á sumarstarfinu og krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði.

Keppendur sjö ára og yngri reyndu fyrir sér á vellinum í 60 m spretthlaupi, langstökki, boltakasti og 400 m hlaupi en hjá 8-11 ára bættust við hástökk og kúluvarp, auk þess sem að hlaupnir voru 600 m í staðinn fyrir 400 m. 12-14 ára kepptu í sömu greinum og 8-11 ára nema spjótkast kom í staðinn fyrir boltakastið. Veður var mjög gott og löglegur vindur í öllum greinum.

Mótið gekk vel fyrir sig, foreldar barnanna aðstoðuðu við framkvæmd mótsins og stóðu sig með sóma.

Að móti loknu fengu keppendur viðurkenningaskjöl með skráðum árangri og svo voru grillaðar pylsur með öllu tilheyrandi og vill deildin þakka kærlega Guðnabakarí og Bónus sem gáfu pylsubrauð og meðlæti með pylsum.

frjalsar_lokamot2011_871104147.jpg