Góð byrjun á motocross-sumrinu

Fyrsta umferðin á Íslandsmótinu í motocrossi fór fram í Bolaöldum um síðustu helgi. Fimm keppendur frá motocrossdeild Umf. Selfoss tóku þátt og stóðu sig mjög vel.

Í 85 cc flokki keppti Þorsteinn Helgi Sigurðarson. Hann var í baráttu um toppsætið og endaði í 2. sæti eftir daginn.

Jóhann Smári Gunnarsson var skráður í B flokk. Hann stóð sig mjög vel eftir að hafa verið frá í allan vetur vegna meiðsla og var í öðru sæti eftir daginn.

Einey Ösp Gunnarsdóttir keppti í kvennaflokki og átti hún mjög gott fyrra moto og endaði í 3. sæti eftir það. Í seinna motoi var hún dæmd úr leik svo hún endaði því í 12. sæti yfir daginn.

Í unglingaflokki kepptu Andri Orri Hreiðarsson og Ragnar Páll Ragnarsson. Andri endaði í 10. sæti eftir ágætis dag og Ragnar kláraði í 5. sæti.

Veðrið var upp á sitt besta fyrir keppendur og áhorfendur en rúmlega áttatíu keppendur voru skráðir til leiks í keppnina.