Gnúpverjar skelltu FSu aftur

Gnúpverjar unnu FSu í annað skiptið í vetur þegar liðin mættust í Fagralundi í Kópavogi í 1. deild karla í körfubolta í dag. Lokatölur urðu 99-87.

Gnúpverjar höfðu frumkvæðið á upphafsmínútunum en FSu jafnaði 14-14 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af 1. leikhluta. Þá stigu Gnúpverjar aftur á bensíngjöfina og leiddu 29-21 þegar 1. leikhluta var lokið. Annar leikhlutinn spilaðist svipað og sá fyrsti og Gnúpverjar voru komnir í nokkuð þægilega stöðu í leikhléi, 57-44.

Seinni hálfleikur var jafnari en FSu tókst aldrei að ógna Gnúpverjum verulega. Þeir áttu þó góða byrjun í 4. leikhluta og náðu að minnka forskotið niður í 10 stig, 87-77 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Nær komst skólaliðið ekki og Gnúpverjar fögnuðu góðum sigri.

Everage Richardson var besti maður vallarins, skoraði 43 stig fyrir Gnúpverja og sendi 8 stoðsendingar. Atli Örn Gunnarsson átti einnig prýðisleik og skoraði 22 stig. Hjá FSu var Florijan Jovanov sterkastur með gott framlag bæði í vörn og sókn og Hlynur Hreinsson og Jett Speelman voru sömuleiðis drjúgir, báðir með 22 stig.

Gnúpverjar hafa nú 8 stig í 7. sæti deildarinnar en FSu er í 8. sætinu með 2 stig.

Tölfræði Gnúpverja: Everage Richardson 43/6 fráköst/8 stoðsendingar, Atli Örn Gunnarsson 22/8 fráköst, Ægir Hreinn Bjarnason 12/4 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 9, Hákon Már Bjarnason 6/9 fráköst/8 stoðsendingar, Bjarni Steinn Eiríksson 3, Bjarki Rúnar Kristinsson 2, Tómas Steindórsson 2/9 fráköst.

Tölfræði FSu: Jett Speelman 22/4 fráköst, Hlynur Hreinsson 22/7 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 16, Florijan Jovanov 15/11 fráköst/5 stoðsendingar, Ari Gylfason 6, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 3, Hilmir Ægir Ómarsson 3.

Fyrri greinBjörgvin Karl sigraði í Dubai
Næsta greinPerla og Kristrún skoruðu mörkin