Glódís Rún íþróttamaður Ölfuss 2023

Glódís Rún Sigurðardóttir. Ljósmynd/Ölfus

Glódís Rún Sigurðardóttir, hestaíþróttakona úr Sleipni, var útnefnd íþróttamaður Ölfuss árið 2023 við hátíðlega athöfn í Versölum um síðustu helgi.

Glódís Rún, sem býr á Sunnuhvoli í Ölfusi, er vel að titlinum komin en hún fagnaði heimsmeistara- og Íslandsmeistaratitli á árinu í flokki ungmenna í fimmgangi á Sölku frá Efri-Brú. Hún var í úrslitum og í efstu sætum á öllum stærstu mótum ársins. Glódís hefur átt fast sæti í U21 landsliðinu frá því hún hafði aldur til og er nú hluti af Landsliðshópi LH.

Auk Glódísar voru sjö aðrir íþróttamenn tilnefndir í kjörinu þau Atli Rafn Guðbjartsson knattspyrna, Emma Hrönn Hákonardóttir körfuknattleikur, Freyja Ósk Ásgeirsdóttir golf, Guðbjartur Ægir Ágústsson motocross, Styrmir Snær Þrastarsson körfuknattleikur, Tómas Valur Þrastarson körfuknattleikur og Unnur Rós Ármannsdóttir hestaíþróttir.

Á verðlaunaathöfninni voru einnig veittar viðurkenningar til þeirra íþróttamanna sem léku með landsliðum Íslands á árinu og þeir íþróttamenn sem fögnuðu meistaratitlum á árinu voru heiðraðir.

Íþróttafólkið sem tilnefnt var í kjörinu. Ljósmynd/Aðsend
Íslandsmeistarar í 12. flokki kvenna í körfuknattleiks ásamt Davíð Arnari Ágústssyni þjálfara sínum. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinVilja að náttúran fái sterkara umboð í samfélaginu
Næsta greinGuðjóna ráðin framkvæmdastjóri Hamars