Gleði og friðarjól hjá Þórsurum

Jordan Semple og Nigel Pruitt voru flottir í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór heimsótti Keflavík í stórskemmtilegum leik í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Það var spilaður dúndrandi sóknarbolti í Blue-höllinni þar sem Þórsarar höfðu nauman sigur og fara glaðir inn í jólafríið.

Þórsarar voru frábærir í sókninni í fyrri hálfleik, hittu vel og náðu fljótlega góðum tökum á leiknum. Munurinn varð mestur 15 stig í fyrri hálfleiknum en staðan í leikhléi var 48-60.

Liðin skiptust á um að gera áhlaup í 3. leikhluta og alltaf þegar Þórsarar náðu góðu andrými svöruðu Keflvíkingar og minnkuðu bilið jafnharðan. Staðan var 76-85 þegar 4. leikhluti hófst og á lokakaflanum hljóp heldur betur spenna í leikinn.

Þórsarar skoruðu ekki körfu á síðustu þremur og hálfri mínútu leiksins og Keflavík breytti stöðunni úr 89-103 í 102-103, sem urðu lokatölur leiksins. Heimamenn áttu síðustu sóknina og voru hársbreidd frá því að stela sigrinum með flautukörfu.

Eftir hárréttan VAR-úrskurð dómaranna fögnuðu Þórsarar sigri og þeir verða því á toppi deildarinnar, ásamt Valsmönnum, um jólin með 16 stig þegar deildarkeppnin er hálfnuð.

Jordan Semple var með risaframlag fyrir Þór í kvöld, 23 stig og 22 fráköst, Nigel Pruitt skoraði 20 stig, Tómas Valur Þrastarson og Darwin Davis 17, Jose Medina 14, Emil Karel Einarsson 9 og Davíð Arnar Ágústsson 3.

Fyrri greinStyrktu Ljónshjarta um tvær milljónir króna
Næsta greinÞúsund gestir á jólasýningu fimleikadeildarinnar