Gleði á Selfossi með afléttingu takmarkana

Frá setningarathöfn Unglingalandsmótsins á Höfn í Hornafirði 2019. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Þetta eru miklar gleðifréttir og tilefni til að flagga enda einfaldar aflétting samkomutakmarkana allan undirbúning hjá okkur við Unglingalandsmót UMFÍ. Það breytir öllu að við þurfum ekki að hafa áhyggjur,“ segir Guðrún Tryggvadóttir, verkefnastjóri við Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Selfossi um verslunarmannahelgina.

Gert er ráð fyrir þúsundum þátttakenda á aldrinum 11-19 ára og foreldrum og forráðamönnum þeirra auk systkina.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra greindi frá því fyrir hádegi í dag að frá og með morgundeginum muni allar takmarkanir á samkomum innanlands falla úr gildi.

Guðrún segir fjölskyldufólk orðið mjög spennt fyrir sumrinu og viðburðum eins og Unglingalandsmótinu þar sem allir geti skemmt sér saman um verslunarmannahelgina.

Mótinu var frestað í fyrra og var búið að grípa til ýmissa varúðarráðstafana vegna mótsins á Selfossi nú um verslunarmannahelgina. Guðrún segist himinlifandi yfir afléttingunni.

„Undir niðri hélt maður að afléttingin yrði hægari og minni í sniðum. Þess vegar var það gleðiefni að öllu var aflétt. Nú verður allt miklu léttara í skipulagningu mótsins. Við munum auðvitað eftir sem áður fara að öllu með gát,“ segir hún.

Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ hefst þann 1. júlí.

Frétt á heimasíðu UMFÍ

 

Fyrri greinHólmfríður aftur til Selfoss
Næsta greinBikarmeistararnir slegnir út (af laginu)