Selfyssingar unnu mikilvægan heimasigur á Þór Akureyri í 1. deild karla í knattspyrnu í dag, 3-2, og lyftu sér þar með upp úr fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir.
Þórsarar eru í harðri toppbaráttu og Selfyssingar í æsispennandi fallbaráttu. Það var ekki að sjá í dag, Þórsarar voru sterkari í fyrri hálfleiknum en Selfoss átti seinni hálfleikinn og vann sanngjarnan sigur.
Það var fátt um færi í fyrri hálfleik en Þórsarar komust yfir á 42. mínútu og staðan var 0-1 í leikhléi.
Selfyssingar mættu mjög ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og ógnuðu mikið. Eftir sjö mínútur átti Aron Fannar Birgisson góðan sprett, sem lauk með glæsilegu skoti, 1-1. Selfoss lét kné fylgja kviði og Harley Willard skoraði með góðu skoti fimm mínútum seinna, gegn sínum gömlu félögum og fagnaði vel.
Þórsarar voru ekki af baki dottnir og þeir fengu vítaspyrnu á 66. mínútu eftir klaufagang í vörn Selfoss. Gestirnir jöfnuðu úr vítinu og allt virtist stefna í 2-2 jafntefli, þar til á 90. mínútu að Aron Lucas Vokes skoraði ótrúlegt sigurmark. Hann vann boltann á miðjunni, geystist fram, lék á mann og annan á meðan Þórsarar reyndu að brjóta á honum og lagði boltann svo snyrtilega í netið úr vítateignum.
Með sigrinum lyftu Selfyssingar sér upp um tvö sæti, upp í 9. sætið með 19 stig, þegar tvær umferðir eru eftir. Þeir mæta Leikni í næstu umferð, en Leiknismenn eru nú í fallsæti, tveimur stigum á eftir Selfoss.
