Glæsimörk í grátlegu tapi

Aron Einarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar sigldu svekktir frá Vestmannaeyjum eftir 3-2 í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var bráðfjörugur og hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. ÍBV komst yfir strax á 3. mínútu en Gary Martin jafnaði tíu mínútum síðar með glæsilegu marki úr aukaspyrnu, sem má sjá neðst í fréttinni.

Eyjamenn voru líklegri í kjölfarið og þeir komust aftur yfir á 26. mínútu og á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu þeir vítaspyrnu eftir að Stefán Þór Ágústsson, markvörður Selfoss, braut á sóknarmanni ÍBV. Stefán bætti fyrir brotið með því að verja vítaspyrnuna og staðan var 2-1 í hálfleik.

Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleiknum og á 50. mínútu skoraði Aron Einarsson stórglæsilegt mark með þrumuskoti af löngu færi upp í samskeytin. Skömmu síðar átti Hrvoje Tokic skot í þverslána en Selfyssingar gáfust ekki upp og héldu áfram að sækja. Þeir fengu hins vegar blauta tusku í andlitið á 72. mínútu þegar ÍBV komst yfir aftur. Eyjamenn héldu aftur af Selfyssingum á lokakaflanum og sigruðu 3-2 og raunar var ÍBV-liðið nær því að bæta við marki.

Selfoss er áfram í 10. sæti deildarinnar með 8 stig en ÍBV er í 2. sæti með 16 stig.

Fyrri greinSamið um rekstur Bankans Vinnustofu á Selfossi
Næsta greinTvö töp í röð hjá Ægi