Glæsilegur sigur HSK/Selfoss á MÍ 15-22 ára – Ásta Dís setti mótsmet

Hluti af keppnisliði HSK/Selfoss sem vann Íslandsmeistaratitil félagsliða í flokki 15-22 ára. Ljósmynd/Helga Guðmundsdóttir

Meistaramót Íslands innanhúss í frjálsum íþróttum 15-22 ára fór fram um síðustu helgi í Laugardalshöllinni. Lið HSK/Selfoss vann þar stigakeppnina með talsverðum yfirburðum og varð Íslandsmeistari félagsliða.

HSK/Selfoss fékk 277,5 stig í heildarstigakeppninni og en liðið sigraði einnig örugglega í aldursflokki 15 ára stúlkna.

Sunnlensku keppendurnir unnu tíu Íslandsmeistaratitla. Ásta Dís Ingimarsdóttir varð Íslandsmeistari og setti mótsmet í 600 m hlaupi í flokki 15 ára stúlkna þegar hún hljóp á 1:55,38 mín.

Ásta Dís Ingimarsdóttir setti mótsmet í 600 m hlaupi 15 ára stúlkna.

Eydís setti þrjú HSK-met
Eydís Arna Birgisdóttir vann bronsverðlaun í 300 m hlaupi í flokki 15 ára stúlkna á tímanum 43,33 sek og bætti þar HSK-metin í þremur aldursflokkum; 15 ára stúlkna, 16-17 ára og 18-19 ára stúlkna. Fyrra metið átti Lára Björk Pétursdóttir, 44,62 sek. Eydís Arna lét ekki þar við sitja heldur vann hún þrjá Íslandsmeistaratitla á mótinu; í 60 m hlaupi á 8,30 sek, langstökki þar sem hún stökk 4,95 m og þá var hún í boðhlaupssveit HSK/Selfoss sem sigraði í 4×200 m boðhlaupi. Með henni í sveitinni voru Ásta Dís, Katrín Eyland Gunnarsdóttir og Ísold Assa Guðmundsdóttir en tími sveitarinnar var 1:56,47 mín.

Eydís Arna Birgisdóttir.

Ísold Assa bætti einnig fleiri Íslandsmeistaratitlum í safnið í 15 ára flokknum því hún sigraði í hástökki, stökk 1,57 m og í kúluvarpi þar sem hún kastaði 10,71 m.

Jónas Grétarsson varð Íslandsmeistari í 200 m hlaupi pilta 20-22 ára á 24,55 sek og Goði Gnýr Guðjónsson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í 800 m hlaupi pilta 18-19 ára á 2:16,38 mín. Þá varð Eva María Baldursdóttir Íslandsmeistari í hástökki í flokki 18-19 ára stúlkna með stökk upp á 1,72 m.

Ekki er allt upp talið því HSK/Selfoss vann einnig Íslandsmeistaratitil í 4×200 m boðhlaupi 16-17 ára pilta á 1:41,22 mín. Sveitina skipuðu þeir Martin Patryk Srichakham, Oliver Jan Tomczyk, Daníel Breki Elvarsson og Olgeir Otri Engilbertsson.

Gríðarlega mikið var um persónulegar bætingar hjá keppendum HSK/Selfoss og fjölmargir fleiri góðmálmar söfnuðust því Sunnlendingarnir náðu í sextán silfurverðlaun og þrettán bronsverðlaun.

Íslandsmeistarar í 4×200 m boðhlaupi 16-17 ára pilta. Daníel og Martin standandi og Olgeir og Oliver sitjandi. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson
Boðhlaupssveit HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í 4×200 m hlaupi 15 ára stúlkna. Ísold Assa, Ásta Dís, Eydís Arna og Katrín Eyland. Ljósmynd/Helga Guðmundsdóttir
Jónas Grétarsson varð Íslandsmeistari í 200 m hlaupi 20-22 ára. Ljósmynd/FRÍ
Eva María Baldursdóttir varði Íslandsmeistaratitil sinn í hástökki 18-19 ára stúlkna. Ljósmynd/FRÍ
Sigurlið HSK/Selfoss í stigakeppninni í flokki 15 ára stúlkna. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson
Fyrri greinFrábær byrjun á úrslitakeppninni
Næsta greinHvað er líkt með herstöð á Straumnesfjalli og gróðurhúsi á Suðurlandi?