Glæsilegur sigur Hilmis Freys

Frá verðlaunaafhendingunni í Bankanum á Selfossi. Ljósmynd/CAD

Hilmir Freyr Heimisson sigraði nokkuð óvænt á Íslandsmótinu í atskák sem haldið var á Selfossi síðastliðinn laugardag. Sigur hans var glæsilegur en hann kom í mark með 8,5 vinninga af 9 mögulegum, sem er framúrskarandi árangur.

Mótið var haldið í Bankanum vinnustofu en þetta er annað árið í röð sem mótið er haldið á Selfossi. Kaffi krús og Tómas Þóroddsson eru aðalstyrktaraðilar mótsins sem haldið er af félögunum í Chess After Dark.

Vignir stefndi á þrennuna
Fyrirfram hefðu margir veðjað á sigur Vignis Vatnars Stefánssonar en Vignir var að berjast um að ná „þrennunni“ þ.e. vinna Íslandsmeistaratitil í kappskák, atskák og hraðskák á sama árinu. Vignir Vatnar Stefánsson endaði hins vegar í 2. sæti með 7 vinninga ásamt Helga Áss Grétarssyni en Vignir hafði betur á innbyrðis viðureign.

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir átti frábæran endasprett og endaði ein í 4. sæti með 6,5 vinning og varð jafnframt Íslandsmeistari kvenna í atskák og Markús Orri Óskarsson hlaut stigaverðlaun mótsins.

Stórskemmtilegt að tefla á Selfossi
Að sögn Birkis Karls Sigurðssonar hjá Chess After Dark gekk mótshaldið gríðarlega vel, þeir CAD bræður orðnir reyndir í bransanum, Daði Ómarsson stóð sig vel í hlutverki skákstjóra og útsending frá mótinu gekk vel þar sem Benedikt Briem átti góða frumraun og Ingvar Þór gjörsamlega geggjaður. „Styrktaraðilar fá bestu þakkir og vonandi heldur þessi hefð áfram enda stórskemmtilegt að skreppa og tefla á Selfossi,“ segir Birkir.

Tómas Þóroddsson er helsti styrktaraðili mótsins enda er honum umhugað um framgang skákíþróttarinnar. Ljósmynd/CAD
Fyrri greinStefán Þór kveður uppeldisfélagið
Næsta greinBílvelta í Þrengslunum