Unglingalandsmót UMFÍ var haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina og þetta var í þriðja sinn sem mótið er haldið þar. Rúmlega 1.000 keppendur voru skráðir á mótið og komu 82 þeirra frá HSK.
Það var glæsilegur HSK hópurinn sem gekk inn á völlinn á setningarhátíð mótsins, en allir keppendur sambandsins fengu að gjöf bláa HSK treyju merkta HSK og Arion banka. Bankinn er aðalstyrktaraðili HSK og samstarfið ein aðalforsenda þess að hægt sé að afhenda treyjuna endurgjaldslaust.
Keppendur HSK unnu unglingalandsmótstitla í níu mismunandi íþróttagreinum. Hér að neðan er getið um Unglingalandsmótsmeistara af sambandssvæðinu.
Unglingalandsmótsmeistarar HSK:

Fimleikar
Fimleikalið af sambandssvæðinu, sem kallaði sig Ice girls urðu Unglingalandsmótsmeistarar í flokki 11-14 ára. Í liðinu voru vinkonurnar Andrea Sjöfn Óskarsdóttir, Ásta Kristín Ólafsdóttir, Bergþóra Hauksdóttir og Stella Natalía Ársælsdóttir.

Frjálsar íþróttir
Keppendur HSK unnu 16 unglingalandsmótstitla í frjálsum á mótinu. Margir voru að bæta sinn persónulega árangur, þó engin HSK met hafi verið bætt að þessu sinni.
Nikulás Tumi Ragnarsson varð Unglingalandsmótsmeistari í kúluvarpi í 11 ára flokki stráka.
Í 14 ára flokki vann Ásta Kristín Ólafsdóttir titil í spjótkasti stúlkna og Birkir Aron Ársælsson vann spjótkastið í sama aldursflokki pilta.
Anna Metta Óskarsdóttir varð þrefaldur unglingameistari í 15 ára flokki, vann 200 metra hlaup, hástökk og þrístökk. Adda Sóley Sæland vann langstökk og kúluvarp í sama aldursflokki.
Í flokki 16-17 ára vann Kristján Kári Ólafsson kringlukast og sleggjukast. Helgi Reynisson stökk lengst allra í langstökki og Bryndís Embla Einarsdóttir bætti við titlasafn sitt í spjótkasti.
Í elsta aldursflokknum varð Ísold Assa Guðmundsdóttir fjórfaldur meistari, vann 100 metra hlaup, hástökk, þrístökk og kúluvarp. Daníel Smári Björnsson tryggði sér titilinn í þrístökki í 18 ára aldursflokknum.

Glíma
Aron Logi Daníelsson varð landsmótsmeistari í glímu í flokki 13-14 ára stráka.

Golf
Freyja Ósk Ásgeirsdóttir varði titil sinn frá því í fyrra, en hún varð meistari í golfi í 14-15 ára flokki stúlkna.

Grashandbolti
Strumparnir voru öflugir í flokki stráka 11-12 ára, en tvö lið með því nafni tóku þátt í nokkrum greinum á mótinu. Strumparnir 2 urðu landsmótsmeistarar í grashandbolta og þeir sem skipuðu liðið voru þeir Birkir Rafn Ingason, Dagur Ágústsson, Dagur Rafn Gunnarsson, Hafsteinn Ingi Magnússon, Leó Hrafn Daníelsson og Tómas Otrason.

Knattspyrna
Strumparnir 2 urðu unglingalandsmótsmeistarar í knattspyrnu í flokki 11-12 ára. Í sigurliðinu voru þeir Birkir Rafn, Dagur Rafn, Hafsteinn Ingi, Leó Hrafn og Tómas.

Krakkahreysti
Krakkahreysti var ný grein á mótinu. Þar áttum við sigurvegara, en þær Ástdís Lilja Guðmundsdóttir og Ísold Edda Steinþórsdóttir, sem kölluðu lið sitt Ice girls, unnu í flokki 11-12 ára stúlkna.
Kökuskreytingar
Í þessari vinsælu grein stóðu HSK krakkarnir sig vel. Í einstaklingskeppninni í flokki 11 – 12 ára varð Linda Björk Smáradóttir unglingalandsmótsmeistari og Andrea Sjöfn Óskarsdóttir sigraði í flokki 13 – 14 ára. Í liðakeppni í flokki 13 – 14 ára vann liðið Meistararnir titil. Liðið skipuðu þær Ásta Kristín Ólafsdóttir og Stella Natalía Ársælsdóttir.

Sund
Í sundi vann Arnór Karlsson tvo titla, en hann varð meistari í 50 metra baksundi og 100 metra skriðsund í flokki 15 – 16 ára pilta.
Vinkonurnar í Icegirls, þær Andrea Sjöfn, Ásta Kristín, Bergþóra og Stella Natalía, urðu Landsmótsmeistarar í 4x50m skriðsundi stúlkna.
Hér er ekki getið um þá fjölmörgu sem unnu silfur og brons í ofantöldum greinum. Keppendur frá HSK unnu að auki til verðlauna borðtennis, frisbígolfi, grasblaki, hjólreiðum, körfuknattleik, pílukasti og stafsetningu. Krakkarnir kepptu einnig í skák og motocross og voru nærri verðlaunasætum. Þá eru þrjár keppnisgreinar ótaldar, en engin þátttakandi af sambandssvæðinu keppti í rafíþróttum, skák og upplestri.
Úrslit greina má nálgast á heimasíðu UMFÍ.
Ef lesendur vita um fleiri Unglingalandsmótsmeistara af sambandssvæðinu eru þeir beðnir um að senda upplýsingar á hsk@hsk.is.
Næsta Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina 2026.

