Glæsilegur árangur á NM unglinga

Þorvaldur Gauti, Daníel Breki, Ívar Ylur og Hanna Dóra á keppnisvellinum í Svíþjóð.

Fjórir Sunnlendingar gerðu það gott um helgina á Norðurlandameistaramóti U20 í frjálsum íþróttum sem haldið var í Uppsala í Svíþjóð. Eitt héraðsmet var sett á mótinu.

Ívar Ylur Birkisson, Íþf. Dímon, hljóp 110 m grindahlaup á 15,73 sek setti þar með HSK-met í 16-17 ára flokki á 99,1 sm grindur. Ívar hafnaði í 7. sæti í hlaupinu en hann keppti einnig í hástökki og vippaði sér þar yfir 1,83 m og endaði í 9. sæti.

Daníel Breki Elvarsson, Umf. Selfoss, kastaði sitt ársbesta í spjótkasti þegar hann kastaði 54,94 m og skilaði það kast honum 7. sæti.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, bætti sig um rúmlega eina sekúndu í 800 m hlaupi utanhúss þegar hann kom áttundi í mark á 1:57,28 mín. Þorvaldur er í góðu formi þessa dagana og nálgast óðum héraðsmet Friðriks Larsen frá árinu 1988 sem er 1:56,0 mín.

Hanna Dóra Höskuldsdóttir, Umf. Selfoss, var með risabætingu í kringlukasti en hún kastaði kringlunni 38,22 m og bætti sig um heila þrjá metra. Kastið skilaði Hönnu Dóru í 8. sæti og var aðeins 42 cm frá HSK meti Guðbjargar Viðarsdóttur frá árinu 1988.

Ívar Ylur setti HSK met í 16-17 ára flokki í 110 m grindahlaupi á 99,1 cm grindur.
Fyrri greinFrábært vor hefur skapað sterkan grunn
Næsta greinÞyrla sótti slasaðan hjólreiðamann