Glæsileg mörk og Selfoss upp í 2. sætið

Ingi Rafn Ingibergsson skoraði glæsilegt mark fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sannfærandi sigur á Kára í 2. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 4-0.

Selfoss var nokkra stund að brjóta ísinn og fram að því voru Káramenn vel inni í leiknum. Þeir byrjuðu raunar betur og Stefán Þór Ágústsson varði mjög vel strax á 2. mínútu.

Hrvoje Tokic varð lítið ágengt upp við markið í kvöld en hann komst í þrjú mjög góð færi í fyrri hálfleik. Það var síðan á 41. mínútu að Selfyssingar fengu hornspyrnu, Þór Llorens Þórðarson átti góða spyrnu fyrir markið á Tokic sem átti hörkuskot sem markvörður Kára varði en frákastið fór beint á Adam Örn Sveinbjörnsson sem kláraði örugglega úr opnu færi, 1-0.

Fjórum mínútum síðar skoraði Ingi Rafn Ingibergsson frábært mark þegar Tokic renndi boltanum á hann fyrir utan vítateiginn. Ingi var ekkert að tvínóna við hlutina heldur smurði boltanum í stöngina og inn upp við samskeytin. Skotið hans Inga var síðasta spyrna fyrri hálfleiks og staðan 2-0 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var eign Selfyssinga frá upphafi til enda en Kenan Turudija gerði endanlega út um leikinn strax á 52. mínútu með glæsilegu skoti af 40 metra færi sem smaug undir þverslána. Sjö mínútum síðar skoraði svo Þór Llorens af stuttu færi eftir undirbúning Guðmundar Tyrfingssonar.

Leikurinn var búinn eftir þetta og fátt var að frétta á lokakaflanum en Selfyssingar voru mun nær því að bæta við mörkum heldur en gestirnir.

Í hinum leik kvöldsins skildu topplið Leiknis og Fjarðabyggð jöfn, 2-2, þannig að Leiknir heldur toppsætinu með 22 stig en Selfoss er í 2. sæti með 20 stig. Þar á eftir kemur Vestri með 18 stig og leik til góða.

Fyrri greinNý bæjarhátíð í Þorlákshöfn
Næsta greinÁrborg skoraði þrjú í seinni hálfleik