Glæsimörk Þorsteins í góðum sigri

Þorsteinn Daníel Þorsteinsson skoraði tvö glæsileg aukaspyrnumörk fyrir Selfoss sem vann Tindastól 3-0 í 1. deild karla í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag.

Selfyssingar voru grimmir í upphafi leiks og gáfu gestunum engan tíma á boltann. Hvað eftir annað var mikill darraðardans í vítateig gestanna en ísinn brotnaði loksins á 24. mínútu. Þá var brotið á Hauki Inga Gunnarssyni innan vítateigs og Luka Jagacic fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi. Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiks en Selfyssingar voru nær því að bæta við mörkum á meðan Tindastóll treysti á skyndisóknir en uppskáru ekkert.

Selfoss hafði áfram góð tök á leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Á 59. mínútu braut Loftur Páll Eiríksson á Einari Ottó Antonssyni rétt fyrir utan vítateig og fékk fyrir vikið að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Upp úr vel útfærði aukaspyrnunni skoraði svo Þorsteinn Daníel með glæsilegu skoti utan vítateigs.

Eftir markið róaðist leikurinn nokkuð en bar þess þó ekki merki að gestaliðið væri manni færri. Bæði lið áttu ágætar sóknir en Vignir Jóhannesson, markvörður Selfoss, þurfti þó lítið að hafa fyrir hlutunum. Selfyssingar voru nær því að bæta við og á 81. mínútu kom þriðja markið. Aftur var brotið á Einari Ottó fyrir utan vítateig Tindastóls og aftur afgreiddi Þorsteinn boltann glæsilega í netið.

Síðustu tíu mínútur leiksins voru afspyrnu rólegar, enda sigur Selfyssinga í höfn og tíu leikmenn Tindastóls höfðu lítið í baráttuglaða heimamenn að gera á lokakaflanum.

Selfoss er nú í 7. sæti 1. deildarinnar með sjö stig og mætir næst toppliði Leiknis á Leiknisvellinum á laugardaginn.

Fyrri greinStrákarnir okkar: Áhugi á Viðari í Englandi
Næsta greinJóhann opnar tjaldvagnaleigu