Glæsimark Hjörvars skildi liðin að

KFR og Stokkseyri mættust í miklum baráttuleik í 4. deild karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í kvöld. Heimamenn sigruðu 1-0.

Fyrri hálfleikur var markalaus en á þrettándu mínútu síðari hálfleiks skoraði Hjörvar Sigurðsson glæsilegt mark fyrir KFR og dugði það til að tryggja þeim sigurinn. Markið kom eftir snarpa sókn upp vinstri kantinn þar sem boltinn barst yfir á Hjörvar fyrir utan vítateig Stokkseyringa. Hann lagði knöttinn fyrir sig og lét svo vaða í þverslána og inn.

Skömmu síðar fékk Stokkseyringurinn Eyþór Gunnarsson að líta rauða spjaldið fyrir að hrinda mótherja. Manni færri lögðu Stokkseyringar ekki árar í bát og áttu meðal annars skot í stöng og slá auk þess sem Rangæingar björguðu á línu.

Vörn KFR stóð af sér þetta áhlaup og þrátt fyrir fjörugar sóknir og mikla baráttu tókst hvorugu liðinu að bæta við marki á lokakaflanum.

Rangæingar hafa farið vel af stað í deildinni í sumar, eru í 2. sæti B-riðils með 7 stig eins og Augnablik sem situr í toppsætinu. Toppliðin tvö skildu einmitt jöfn, 1-1, í síðustu umferð, þar sem Magnús Hilmar Viktorsson skoraði mark KFR.

Stokkseyringar bíða enn eftir sínum fyrsta sigri en liðið er í 7. sæti riðilsins með 1 stig.

Fyrri greinVegfarendur hvattir til að fylgjast með veðri og færð
Næsta greinSauma fjölnota innkaupapoka fyrir öll heimili í hreppnum