Glæsimark Guðbergs tryggði sigurinn

Árborg vann sannfærandi 0-2 sigur á KFG í uppgjöri efstu liðanna í A-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í Garðabæ.

Árborgarar voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir á 25. mínútu. Markvörður KFG skoraði þá skrautlegt sjálfsmark þegar hann fékk boltann – og missti, eftir misheppnaða aukaspyrnu Hallgríms Jóhannssonar. Á markamínútunni, þeirri 43., gerði Guðbergur Baldursson svo út um leikinn með glæsilegu skallamarki eftir aukaspyrnu Theodórs Guðmundssonar. Þetta var fyrsti leikur Guðbergs fyrir Árborg síðan árið 2005 en hann gekk í raðir liðsins frá KFR undir lok síðasta félagaskiptaglugga.

Í síðari hálfleik voru heimamenn meira með boltann en Árborgarliðið lá aftarlega og hélt aftur af KFG með skipulögðum varnarleik. Leikurinn opnaðist meira undir lokin og Árborg fékk þá nokkur hálffæri.

Með sigrinum tryggði Árborg sér endanlega sigur í A-riðli og mun mæta liðinu í 2. sæti B-riðils í 8-liða úrslitakeppni 3. deildarinnar. KFS, KFK og Ægir berjast um það sæti.

Fyrri greinMarkalaust á Hvolsvelli
Næsta greinEkki hætta af flúormengun