Glæsileg tilþrif á lokamótinu

Síðasta mótið í mótaröð meistaradeildar UMFÍ í hestaíþróttum var haldið í Rangárhöllinni við Hellu á þriðjudagskvöld. Arnar Bjarki Sigurðarson sigraði í keppni knapa með 82 stig.

Gústaf Ásgeir Hinriksson varð annar í stigakeppninni með 72,5 stig en Saga Melbin, Birgitta Bjarnadóttir og Rakel Natalie Kristinsdóttir voru allar með 51,0 stig.

Á þriðjudagskvöld var keppt í tölti og skeiði en þetta var þriðja mótið á mótaröðinni. Upphaflega átti það að fara fram í apríl en keppni var frestað þegar hestapestin kom upp.

Í töltkeppni í unglingaflokki varð Sara Sigurbjörnsdóttir á Hálfmána frá Skrúð í fyrsta sæti með 6,70, Edda Hrund Hinriksdóttir á Skrekk frá Hnjúkahlíð varð önnur með 6,67 og Arnar Bjarki Sigurðsson á Kamban frá Húsavík þriðji með 6,63.

Í b-úrslitum hlaut Andri Ingason á Orku frá Þverárkoti 6,67, Kári Steinsson á Spyrni frá Grund 6,39, og Hekla Kristinsdóttir á Freymóði frá Feti 6,22.

Í a-úrslitum hlaut Gústaf Ásgeir Hinriksson á Naski frá Búlandi 7,00 í einkunn, Arnar Bjarki Sigurðsson á Kamban frá Húsavík 7,00, og Sara Sigurbjörnsdóttir á Hálfmána frá Skrúð 6,94.

Í 100 metra skeiði varð Gústaf Ásgeir Hinriksson á Fálka frá Tjarnarlandi varð fyrstur á 5,89, Andri Ingason á Glampa frá Hömrum annar á 5,97, og Birgitta Bjarnadóttir á Vatnar frá Gullberastöðum þriðja á 6,12.

Þess má geta að árangur Gústafs Ásgeirs er athyglisverður en hann er langyngstur keppenda en hann fermdist í vor.

„Keppnin gekk alveg ljómandi vel og það var virkilega gaman og spennandi að fylgjast með krökkunum í þessari lokakeppni. Það var gott að klára þetta en við höfum þurft að fresta keppni frá því í apríl í vor þegar hestapestin gerði vart við sig. Það sáust mörg góð tilþrif og margir efnilegir knapar að koma fram í sviðsljósið. Þessi krakkar eiga svo sannarlega eftir að láta að sér kveða í framtíðinni,“ sagði Arndís Pétursdóttir einn af skipuleggjendum keppninnar.

Fyrri greinÁrborg fær aðvörun
Næsta greinEyþór tekur bréfið alvarlega