Glæsimark Egils lagði grunninn að sigri

Selfyssingar eiga í hatrammri fallbaráttu við Framara þegar tvær umferðir eru eftir af Pepsi-deild karla. Selfoss vann glæsilegan 2-1 sigur á Keflavík í kvöld á meðan Fram gerði dramatískt jafntefli við Stjörnuna.

Selfyssingar tóku leikinn strax í sínar hendur og stjórnuðu umferðinni allan fyrri hálfleik. Færin voru fá á báðum endum vallarins en Selfyssingar allan tímann líklegri. Það var þó ekki fyrr en tíu sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik að Egill Jónsson mölvaði ísinn með stórkostlegu marki. Egill fékk boltann 30 metra frá marki og lét vaða upp í samskeytin.

Staðan 1-0 í hálfleik og mark Selfoss eins og ísköld og rennblaut skúringamoppa í andlitið á Keflvíkingum. Selfyssingar veittu Keflvíkingum síðan nánast rothöggið strax á fjórðu mínútu síðari hálfleiks þegar brotið var á Jóni Daða Böðvarssyni inni í vítateig. Viðar Kjartansson fór á punktinn og skoraði af fádæma öryggi.

Selfyssingar hefðu getað bætt við mörkum úr ágætum færum í seinni hálfleik. Keflvíkingar minnkuðu hins vegar muninn á 80. mínútu með óvæntu glæsimarki. Hné Selfyssinga skulfu í nokkrar mínútur á eftir en þeir vínrauðu kláruðu leikinn að lokum af yfirvegun og Keflvíkingar áttu ekki fleiri færi.

Selfoss fór uppfyrir Fram um stund en tveimur tímum síðar voru Framarar aftur komnir í tíunda sætið eftir 1-1 jafntefli gegn níu Stjörnumönnum. Stjarnan jafnaði metin á 92. mínútu. Bæði Selfoss og Fram hafa 21 stig en markahlutfall Framara er betra svo munar þremur mörkum.