Glæsilegur hópur fer á Eurogym

Vikuna 12.-18. júlí næstkomandi heldur hópur af stúlkum á vegum Fimleikadeildar Umf. Selfoss á fimleikahátíðina Eurogym, sem að þessu sinni er haldin í Helsingborg í Svíþjóð.

Eurogym er haldin annað hvert ár en hátíðina sækja mörg þúsund ungmenni allstaðar að frá Evrópu. Alls fara tuttugu stúlkur frá Selfossi og er þær á aldrinum 14-16 ára. Með þeim fara tveir þjálfarar og tveir fararstjórar.

Frá Íslandi fara rúmlega 300 þátttakendur frá mörgum félögum víðsvegar á landinu. Stúlkurnar hafa staðið í ströngu síðustu vikurnar að æfa sýningaratriði sitt sem þær sýna á hátíðinni víðsvegar um borgina.

Þeir sem vilja koma og sjá þennan fríða hóp stúlkna á lokaæfingu sinni eru hjartanlega velkomnir í íþróttahúsið Baulu í Sunnulækjarskóla á fimmtudaginn, 10. júlí kl. 20:00.

Fyrri greinFólki ráðið frá því að stoppa við Múlakvísl
Næsta greinLagning Ljósveitu að hefjast í Þorlákshöfn