Glæsilegu Olísmóti lokið

Olísmótinu, meistaradeild 5. flokks karla í knattspyrnu, lauk á Selfossi í dag eftir þriggja daga gleði. Mótið hefur aldrei verið stærra í sniðum og lukkaðist að vanda vel.

Alls voru 72 lið skráð til leiks og voru keppendur nálægt 650 talsins.

Þrátt fyrir rigningu alla mótsdagana voru aðstandendur og þátttakendur ánægðir með hvernig til tókst en mótið hefur aldrei verið stærra í sniðum. Auk þess að spila fótbolta fara liðin í sundlaugarpartí, bíó og á kvöldvöku svo eitthvað sé nefnt.

Breiðablik sigraði tvöfalt í riðli 1 hjá A-liðum og KR sigraði í riðli 2 hjá A-liðum. Selfyssingar stóðu sig vel á öllum vígstöðvum en Selfoss sigraði til að mynda í riðli 2 hjá D-liðum.

“Mót sem þetta myndi aldrei ganga upp án þess mikla fjölda sjálfboðaliða sem leggja sitt af mörkum fyrir mótið og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir,” sagði Sævar Sigurðsson, einn aðstandenda mótsins, í samtali við sunnlenska.is.