Glæsilegt Olísmót að baki

Það voru mörg glæsitilþrif sem litu dagsins ljós í Meistaradeild Olís sem fram fór í níunda skipti á Selfossvelli um helgina. Þar voru mættir til leiks nærri 600 strákar frá 17 félögum í 5. flokki sem lögðu sig alla fram í hvern einasta leik og skemmtu sér gríðarlega vel.

Í heild var spilaður 261 leikur á mótinu og mörkin urðu hvorki fleiri né færri en 1.051.

Þrjú sunnlensk lið tóku þátt í mótinu í ár auk Selfyssinga þ.e. Hrunamenn, ÍBV og Hamar. Af einstökum liðum má nefna að ÍBV sigraði í keppni B-liða auk þess sem þeir náðu þriðja sæti í keppni C-liða og E-liða. Hamarsstrákarnir kræktu sér í silfur í keppni D-liða og heimamenn í Selfoss lentu í þriðja sæti í keppni A-liða og D-liða.

Að loknu frábæru móti vill knattspyrnudeild Selfoss þakka öllum þátttakendum, þjálfurum og forráðamönnum kærlega fyrir komuna ásamt þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu með einum eða öðrum hætti að framkvæmd mótsins. Mótið gekk afar vel fyrir sig og má þakka það góðri skipulagningu, óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi og síðast en ekki síst prúðmannlegri framkomu mótsgesta.

Öll úrslit mótsins má finna á www.olismot.is.

Fyrri greinSkoða viðbyggingu við Krakkaborg
Næsta greinÆgir og Hamar töpuðu